sunnudagur, 9. nóvember 2008

Óþægileg Lífsreynsla

Það var nú fyrir skemmstu á vaktaskiptunum í vinnunni að þjónustustjóriSecuritas á Austurlandi mætti óvenju snemma til vinnu sem er vart frásögu færandi nema hann var grár og gugginn í fasi, hárið stóð upp í loftið eins og sina á þúfu. Hann var lasinn og hnerraði af og til í rjómahvítan vasaklút. Hann var í ljósgráu úlpunni sinni sem var líka númerinu of stór svo hann virtist hálf draugalegur á að lýta.
Þjónustustjórinn stóð við útidyrnar í hæfilegri fjarlægð og horfði á öryggisverðina þar sem þeir stóðu í hópum. Það var létt á mönnum þegar rædd voru skemmtilegustu atvik liðinnar vaktar. Þjónustustjórinn herti sig upp og gekk að mönnum til að vitja frétta en hafði ekki erindi sem erfiði.
Öryggisvörður nokkur sem sá til hans fann til með honum og ákvað því að sýna honum athygli og gekk á eftir honum inn fyrir móttökuborðið þar sem þjónustustjórinn gerði sig líklegan til að betla samúð frá símadömunni en rétt í því þegar þjónustustjórinn er kominn að símadömunni, tekur hún upp símtólið og býður góðan dag.
Hann stóð því þarna með orðin á vörunum. Hann var tilbúinn að segja “Sæl og góða daginn. Ertu búin að ná þér af niðurgangspestinni?” Honum fannst hann bara nokkuð fyndinn þó hann vissi að hann hafði hugsað þetta á leiðinni í vinnuna og hlakkaði til en þess í stað stóð hann þarna með þurran munninn og ósýnilegur í þokkabót. Það var ekkert í boði fyrir hann, enginn vildi vita af honum og snéri hann sér því hægt í burtu frá henni eins og bátur að stíga frá landi. Honum gramdist þetta viðmót þegna hans og þótti fúlt.
Þegar þarna var að komið, var öryggisvörðurinn skrefinu fyrir aftan þjónustufulltrúan, tilbúinn að hnippa í hann þegar þjónustufulltrúinn hnerraði í tvígang og snýtti sér svo jafn oft. Eitthvað sá öryggisvörðurinn broslegt við þetta en það tók alveg mælinn úr þegar þjónustustjórinn tók skrefin þá leit hann laumulega í kring um sig, svo tók hann gönguprumpið á þetta.
Með Guðs hjálp tókst öryggisverðinum að halda í sér hlátrinum en varð þess í stað eitt stórt bros og sveigði í suður, nösum sínum til björgunar.
Þjónustustjórinn var kominn fram á gang og staldraði þar við, leit um öxl til að fullvissa sig um að enginn hefði orðið var við gjörðir hans en svo sá hann öryggisvörðnn.
-Hvað? Sagði hann og það mátti gæta ergelsis í rámri rödd hans en öryggisvörðurinn gat ekki svarað honum, hann vissi hvað hann gat sagt en það gerðist ekkert, sennilega áhrif frá prumpinu. Öryggisvörðurinn stóð því bara þarna fyrir framan hann, skælbrosandi með hendur í vösum. Þjónustustjórinn hristi höfuðið og hélt því för sinni áfram, enn gramari en áður. Eina athyglin sem hann fékk frá fólki var þetta leiðinda bros öryggisvarðarins á milli eyrnanna.
Þjónustustjóri Securitas á Austurlandi réri því á önnur mið og fann hina fullkomnu huggun í tebolla.

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Faðmlag frá Austur Íslandi

Þá er hann farinn hann litli bróðir minn. Farinn til mömmu sinnar og pabba. Hann fann sig útbrunnan í öryggisvörslunni við álverið á Reyðafirði. Hann er öryggisvörðurinn sem verið hefur hér lengst. Mörg ár, ég veit ekki hve mörg, sennilega þrjú ár eða fjögur og búinn að upplifa margt, bæði skrýtið og það sem búast má við í slíku starfi. Einu sinni varð hann vitni að útlendingaklámi í bláum Eimskipsgámi. Þetta var ein af fyrstu sögunum sem ég heyrði er ég flutti hingað.
Ég er þegar farinn að sakna hans. Það eru aðeins þrír dagar síðan hann læddist inn í herbergið mitt, kveikti ljósið og bauð mér góða daginn. Við áttum þarna síðustu stundirnar okkar á Austur Íslandi í stofunni heima, töluðum um framtíðina og það sem áður hafði gerst hér austan megin.
Sindri hafði komið bílnum sínum á fjögur dekk og það mátti sjá léttinn á honum eða var honum kannske létt á því að komast í burtu héðan. Ég held og ég trúi því að Sindri eigi eftir að sakna austursins.
Eftir nægilega langa stund, var komið að kveðjustund. Við bræðurnir féllumst í faðma. Skrýtið hve fljótlega maður dettur úr æfingu við að faðma. Faðmlagið var frekar hart, eins og það væri veggur á milli okkar en við vorum sennilega farnir að sakna hvors annars þegar við héldum utan um hvorn annan. Hví þarftu að fara svona fljótt hugsaði ég á meðan hann ígrundaði hvort hann væri að gera rétt. Hvaða erindi á hann í bæinn? Er malbikið eitthvað svartara þar en hér? Hann verður bara að læra af þessu strákurinn og svo kemur hann ef til vill aftur seinna.
Á unga aldri var faðmlag ekkert mál, þá var ég líka barn. Enn man ég eftir skeggbroddum föður míns og svo átti hann líka Old Spice. Bróðir föður míns hann Bergur, hann faðmar mig líka alltaf þegar við hittumst og það er langt síðan við hittumst og svo á ég vin sem heitir líka Bergur og við föðmumst alltaf vel og hann hitti ég allt of sjaldan þannig æfingin er ekki stunduð nógu oft. Ég faðma fjölskylduna mína en við erum svo sem ekkert mikið fyrir faðmlög en Fúsi fær stundum faðmlag og Róbert fær faðmlag á hverjum degi.
Sindri gegnir nú störfum vaktmanns á stjórnstöð Securitas í Reykjavík. Hann ákvað að taka þessari stöðu sem þykir einkar þægileg þar sem hann situr við síma og tölvu alla liðlanga vaktina en það er auðvitað holt að breyta um umhverfi. Nýtt fólk og nýjir brandarar.
Til hamingju með nýja starfið Sindri og vegni þér vel.