fimmtudagur, 29. maí 2008

HVAR ERU PENINGARNIR?

Það er komið sumar. Sammála? Trúið mér, þessi bloggfærsla verður í styttra lagi. Eins og hvert vinnandi mansbarn, var orlofið greitt út nú fyrr í mánuðinum og kom væn fúlga að góðu. Nú er mánuðurinn að enda kominn og ég hef gert mér grein fyrir því að ég hef ekki ráðstafað aurnum og er í plús nú undir mánaðamótin. Einkennileg tilfinning, hálf óþægileg. Í dag ætla ég að fara í mollið og kaupa mér jakkan (11.900) sem fór mér svo illa í gær. Ég tók stærð L en vanalega tek ég S eða M. Sennilega framleitt í Kína. Þetta var grænn hermannajakki með spælum og útstandandi pokavösum og fór mér afskaplega illa. Svo fer ég í Húsasmiðjuna og kaupi Hitachi batterísborvel (13.990) svo ég geti lagað svalagólfið. Reyndar dugar topplyklasettið hans Halla til þess en ég held ég taki mig nokkuð vel út með vélina, sérstaklega ef ég býð fullt af fólki í heimsókn. Rauðu ryksuguna (16.990) sem ég var að skoða í gær, kaupi ég. Hún getur mergsogið ýlustrá. Þá get ég ryksugað teppið í stiganum hvern einasta dag. Já og meðan ég man, þá ætla ég að borga skuldina mína til Sindra (10.000) en vonandi verður það ekki til þess að ég komi honum í svipuð peningavandræði og mín. Svo vantar bensín á bílinn (8.000). Gerir þetta ekki um 60.000 kall? Nú ætti ég að vera kominn neðan við núllið og vanaleg vandræði því fram að mánaðamótum.
Þá er komið að stóra málinu. Hvað ætlar þú að gera við orlofspeningana sem vinnuveitandinn gaf þér? Það má ekki segja: skynsemi, bankareikningur, vextir og safna.
ÞAð segja; Eyða, spreða, sóa, kaupa, versla, óþarfi, eignast, fjárfesta, lán.
PS! Vildi bara benda á að það má alveg kommenta á fyrri blogg. bæjó.

þriðjudagur, 27. maí 2008

FÝLUPULSA

Ég vaknaði áðan, þungur og þreyttur. Ég veit ekki eftir hvað ég var þreyttur, varla eftir vinnuna þar sem maður kemst upp með það að safna spiki á rassinn alla vaktina. Klukkan var fimm mínútur í sjö þegar ég staulaðist framúr. Halli sat fyrir framan imbann og flakkaði milli rása. Hann er svo stoltur af sjónvarpinu sínu. Ég kastaði á hann kveðju og hann útskýrði fyrir mér mjög ánægður að nú væri hann búinn að eignast íbúð og kaupin hefðu verið eins og í ævintýri. Á meðan ég hlustaði á ævintýrið ók rútan sem ég tek í vinnuna, fram hjá og þá var vissari að hafa hraðan á en Halli hélt sínum útskýringum og ég einhvern veginn var ekki að komast áleiðis í mínum eigin áætlunum. Ég átti eftir að fara á salernið, og pakka niður tölvunni. Ég tók í spaðan á Halla og óskaði honum til hamingju með kofann og hljóp inn á bað og meig og Halli þagnaði. Nú var orðið of seint að taka rútuna, ég einfaldlega nennti ekki að vera á hlaupum, mér var nær að drullast ekki fyrr á fætur. Ég var enn “grumpy” þegar ég hlammaði mér við sjónvarpið. Fréttir og allt það.
Við félagarnir fórum í sjoppuna. Ég pantaði mér eina pulsu með öllu nema hráum og Pepsí með. Eftir sex mínútur var ég orðinn dálítið leiður yfir því að pulsan skyldi ekki vera tilbúin en auðvitað koma hún en þá fékk ég tvær. Eitthvað hafði frúin verið að flækja málin. Ég ákvað að gera ekki mikið mál út af þessu og borgaði allt. Tvær pylsur og tvær Pepsí í gleri, önnur opin.
Ég ætlaði varla að getað sest inn í bílinn og hvað þá að geta lagt allt góssið frá mér en eftir smá hugsun og basl gekk það eftir en var allur kámaður í remúlaði. Þegar þarna var komið, var mér farið að hitna í hamsi. Svo var ekið af stað með pulsuna í kjaftinum og remúlaði á fingrunum. Ég gat ekki lagt pulsuna frá mér því ekki vildi ég fá remúlaði í sætið og nákvæmlega það gerði mig enn meira fúlan. Gremjan óx í hvert skipti er ég tuggði pulsuna sem var með hráum lauk en ekki steiktum eins og ég hafði beðið um og ekki gat ég teygt mig eftir Pepsíinu án þess að eiga hættu á því að missa stjórn á bílnum. Ég fann að ég hitnaði allur í framan og það kom að því að ég sprakk og öskraði eins og ljón með sebrahest í kjaftinum, nema ég var með pulsu og remúlaði í kjaftinum.
Ég dauðskammaðist mín í nokkrar sekúndur en viðurkenndi að það var ákveðin fullnæging í þessu “happening”. Þetta var svona smá andleg hreinsun.
Ég svolgraði í mig Pepsíinu og byrjaði á seinni pulsunni sem var enn meir klístruð. Gremjjan byrjaði að ólga. Ég var orðinn seinni í vinnuna en ég ætlaði mér og ég tók eftir því að leifar af fyrri pulsunni og remúlaðinu hafði frussast á stýrið, mælaborðið og gírstöngina. Nokkur viðeigandi orð hljómuðu um bílinn og nágrenið.
Þunglyndið og fýlan var yfirþyrmandi þegar ég kom í hlaðið. Toffy hafði ætlað að koma með eitthvað gott, bakkesli eða annað því hún átti afmæli. Mærin orðin 25 ára. Ég skammaðist mín dálítið fyrir að hafa etið á mig gat en ég varð að taka afleiðingunum eins og karlmanni sæmir.
Lena, Mófi og Sindri voru úti að viðra börnin. Ég heilsaði upp á þau og klappaði hundunum sem sprikluðu út um allt með rófuna á fullu. Þessi dýr eru svo saklaus. Það er varla að þau viti hvað andleg fýla er eða hvaða tilgangi hún þjónar. Stórfjölskyldan var kvödd og áður enn ég vissi, var fýlan úr mér horfin en belgurinn á mér var samt út þaninn.
Sem betur fer var afmælisveisla Toffyar síðbúin og pulsan og remúlaðið komið góða leið um meltingarveginn. Toffy bauð okkur Gunnza upp á dýrindis skúffuköku, nýmjólk og góða skapið
.

þriðjudagur, 20. maí 2008

UPPSKRIFT ÚR BÚRINU


Ingredients:
1stk. brauðsneið.
80 gr. lifrarpylsusneið.
1 sneið samlokuostur.
Aðferð: Takið fram brauðristavél, komið henni fyrir á eldhúsborði og stingið rafmagnsklónni sem tengd er í brauðristavélina, í samband. Takið upp brauðsneiðina og haldið henni milli fingra ykkar og setjið hana lóðrétta ofan í brauðristavélina og stillið tímarofan á henni á eina og hálfa mínútu. Munið að sleppa takinu á brauðsneiðinni. Þegar brauðristavélin hefur rist brauðsneiðina, takið hana upp úr brauðristavélinni og setjið hana á þar til gerðan disk af hentugri stærð. Takið upp ósoðna lifrarpylsusneiðina og leggið ofan á brauðsneiðina miðja og setjið svo samlokuostinn ofan á. Neytið. Meðlæti: Grey Earl te. Verði ykkur að góðu.

mánudagur, 12. maí 2008

MISHEPPNAÐUR ÖRYGGISVÖRÐUR

Ömurlegt samtal átti sér stað fyrir skömmu á kaffistofu 348A í kerskálanum er öryggisvörður Securitas var að huga að sjúkrakassa sem þar hékk á vegg. Þar var krökt af fólki sem hann þekti ekki og langaði ekki til að þekkja. Þá heyrir hann að baki sér kvenmansrödd sem segir; "Þetta er plástur!".
Hann kannaðist ekki við röddina og furðaði sig á því að einhver þyrfti að segja honum að þetta væri plástur en hvað gat hann sagt á móti? Ekki gat hann þagað því það væru andfélagsleg viðbrögð en eitthvað varð hann að segja. Án þess að snúa sér við, sagði hann; "Þú ert skörp". Þú ert skörp! Hverskonar svar er það?!
Hann lokaði kassanum og sneri sér við og kunnuglegt andlit horfði hissa á hann. Það var móðir vinnufélaga hans, brunavarðarins sem stóð fyrir framan hann og starði í gegnum þykk öryggissjóngleraugu. Það gat verið. Þetta var vandræðalegt augnablik fyrir öryggisvörðinn og ekki síður fyrir móður brunavarðarins. Hún var að reyna að ná samband við manninn sem vinnur með dóttur hennar, brunaverðinum. Hún ætlaði að brjóta ísinn brjóta ísinn en öryggisvörðurinn eyddi þeirri ætlun með þremur orðum.
"ha?" sagði hún og glápti á öryggisvörðinn eins og hann hefði sagt eitthvað rangt.
Hann horfði á móti, falinn bak við öryggisgleraugun og vonaði að hún sæi ekki hvað hann var orðinn vandræðalegur. Hann varð að koma með eitthvað gáfulegra svar. "Þú ert skörp" endurtók hann og fann að hann hitnaði í framan og óskaði sér að hann gufaði upp og hyrfi.
Hún sagði ekkert og horfði áfram á hann og andlit hennar var sem eitt stórt spurningamerki. Hún hefur sennilega hugsað með sér hverskonar framkoma þetta væri eða að það væri hreinlega ekkert í manninn spunnið.
Öryggisvörðurinn kvaddi í hljóði og þegar hann gekk í burtu fann hann hvernig hún horfði á eftir honum. Þegar hann var kominn úr augsýn, faldi hann andlitt sitt í lófum sínum og gargaði í hljóði "fífl!" Hvað skildi hún segja dóttur sinni? "Er hann eitthvað skrýtinn þessi öryggisvörður sem vinnur með þér?", eða "Er öryggisvörðurinn auli?" eða " Er eitthvað að öryggisverðinum?" eða “Er öryggisvörðurinn eitthvað feiminn?”.
Á þremur orðum og nokkrum sekúndum var mannorð öryggisvarðarins fyrir bý og bæ.