sunnudagur, 24. ágúst 2008

Áfram strákar

Þá vitum við það, ekkert Ólympíugull til Íslands. Frakkarnir sáu til þess. Ég skil ekki ennþá af hverju ég var að koma mér á fætur til þess að horfa á þennan leiðinlega handboltaleik. Ég uppskar ekkert nema leiðindi. Þó frakkarnir væru að rassskella íslendingana hverja einustu mínútu, þá voru þeir með þennan leiðinda leikaraskap. Ef þeir ná ekki almennilega að grípa boltan eða að þeir komi sér ekki í gott færi, þá láta þeir sig detta og komast upp með það á kostnað íslendingsins sem stendur við hlið hans. Og hvað er að dómurum sem líta framhjá þessu? Þeir eiga að dæma á þetta bara vegna þess að það er svo leiðinlegt að horfa upp á þetta. Svona löguðu nenni ég ekki. Að vakna fyrir klukkan átta á sunnudagsmorgni og þurfa að líða þetta og það að íslendingarnir skuli halda það að markmaður sé partur að markinu og af hverju þurfa þeir að henda boltanum í tréverkið þegar auðveldara er að senda hann í netið. Ég er ekki í vondu skapi, ég bara er ekki í góða skapinu.
Til hamingju frakkar, mér finnst þið leiðinlegir og að þið spilið leiðinlegan handbolta og ég vil ekkert meira af ykkur vita og ég ætla að vera bitur það sem eftir er.
Öðru máli gegnir að ég er ánægður með að strákarnir skuli hafa náð silfrinu og spilað lika þennan frábæra handbolta fram að úrslitaleiknum og ætla ég nú að standa upp og hringja í 907-2800.

þriðjudagur, 12. ágúst 2008

BOLTAFJÖR

Í kvöld klukkan 18:30 munu leiða saman hesta sína, Knattspyrnufélag Fjarðabyggða og Íþróttabandalag Vestmannaeyja. Verður liðunum att saman í knattleik á knattspyrnuleikvanginum á Eskifirði og vil ég kvetja fólk til að mæta á völlinn og hvetja mína menn, ekki hina.
Sjálfur spái ég að úrslit leiksins verði 6 mörk gegn engu, gestunum í vil. Ég held að við Eyjamenn skorum að lágmarki 6 mörk í kvöld en það er alls ekki vegna þess að við erum svo góðir, heldur vegna þess að Austfirðingar almennt eru svo lélegir í íþróttum og sér í lagi knattspyrnu.

föstudagur, 8. ágúst 2008

GJÖF AÐ OFAN

Hvað ætlar þú að gera við peningana sem þú fékkst endurgreitt frá skattinum á dögunum? Eða fékkstu engan pening? Skuldar bara og ert fúll og bitur? Skatturinn búinn að ræna þig og þú ætlar að kæra?
Svo við snúum okkur nú aftur að málinu. Hvað ætlar þú að gera við peningana sem Skattmaðurinn gaf þér? -Reglurnar eru þær sömu og áður: Það má ekki segja: skynsemi, bankareikningur, vextir og safna.
Það má segja: eyða, spreða, sóa, kaupa, versla, óþarfi, eignast, fjárfesta, lán.
Og fyrir þá sem fengu ekki krónu, þá má ekki segja: réttlátt, rétt reiknað, skiptir mig engu og alveg sama.
En það má segja: andskotans, svindl, þjófnaður, skítapakk og rugl.