þriðjudagur, 10. júní 2008

HANN ER AÐ KOMA

Hann er á leiðinni! Vigfús Rafnsson, Fúsi, Lord Bastard, Svarthöfði, The Jeti. Í morgun klukkan fimm opnaði hann augun þegar vekjaraklukkan glumdi í salladskálinni. Hann fór strax á fætur en lét klukkuna hringja áfram til öryggis. Hann klæddi sig í sokkana í rólegheitum meðan hann las yfir tékklistan yfir farangurinn. Gólfsettið, flakkarinn, sjö nærbuxur og jafnmörg sokkapör. Til vara hann hafði tekið tveimur meira en hann þurfti. þrennar buxur, og spariskórnir og inniskórnir sem hann fékk í afmælisgjöf. Ullarpeysa, skyrta og tveir nærbolir. Það var ekkert sem hann gleymdi, ekki einu sinni tannburstinn. Allt fullkomið. Bíllinn nýsmurður og tankurinn fullur. Honum sveið tilhugsunin við það að bensínið hafði einmitt hækkað daginn sem hann fyllti tankinn. Það var ekkert við því að gera, vörubílstjórarnir höfðu ekki staðið sig nógu vel í aðgerðum sínum.
Hann tók vatnsglas úr ísskápnum og tók tennurnar upp úr þeim og setti þær í efri góminn. Honum finnst ekkert annað hressari. Hann ætlaði að leggja af stað á slaginu sex. Það var hans lukkutala, en nú var klukkan ekki nema hálf sex og hann tilbúinn. Hann varð ögn órólegur, tvísteig nokkrum sinnum og hugsaði. Hann vissi ekki hvort hann ætti að bera töskurnar út í bíl núna eða um leið og hann legði af stað. Hann gat líka hitað sér te, drukkið það og lagt af stað. Nei hann reif töskurnar upp og fór út. Það var fallegt veður, skýjað, logn og tært loft. Nú vissi hann hvað það var sem gerði hann í raun órólegan. Hann kom farangrinum fyrir í skottinu og golfsettið setti hann í aftursætið. Hann kveikti sér í sígarettu og stóð við bílinn og hugsaði hvort bíllinn færi með hann alla leið. Hann tók kipp þegar hann gerði sér grein fyrir því að hann vissi ekki hvort varadekkið væri í lagi. Það varð bara að hafa það. Því ætti að springa núna þegar það hefur ekki sprungið í næstum tvö ár.
Hann leit snökkt í kringum sig áður en hann henti stubbnum í götuna, svo steig hann ofan á hana. Það var enginn sem sá til hans. Honum var sama, hann var að fara. Kerlingin á efri hæðinni ekki vöknuð, helvítis læti í þessari kerlingu alltaf. Hún ætti að fá sér karl. Hann fór aftur inn og gekk um íbúðina eins og hann væri að leita af einhverju þó hann vissi að hann var með allt. Það var meira að segja nóg piss á rúðunni. Bíllinn var pottþéttur, fyrir kanski utan varadekkið og farangurinn gulltryggður með naríum og sokkum.
Hann gekk úr skugga um að öll ljós væru slökkt og tók fjöltengið í stofunni úr sambandi. hann varð rórri við það svo settist hann í sófann og hallaði höfðinu. Það var einkennilegt að sitja og hafa slökkt á sjónvarpinu. hann lokaði augunum og varð hugsað til foreldrana. Hann hafði ekki kvatt þau almennilega. Hann hefði viljað hitta aðeins betur á þau.
Hann hrökk upp og reif símann úr vasanum. Klukkan er orðin sex. Hann blótaði og strunsaði af stað skellti hurðinni í lás og lokaði þegar hann fattaði að hann læsti húslyklana inni en sem betur fer var hann með bíllykilinn. Hann blótaði aftur og hljóp að bílnum. Hann vildi ekki verða seinn af stað, sex var hans tala. Bíllinn fór í gang eins og hann gerir alltaf, sem betur fer en hann bölvaði húslyklunum. Hann setti bílinn í fyrsta gír og snéri stýrinu og ók af stað. Högg og hávaði kom á bílinn þegar hann var um það bil að aka út á götuna og bíllinn staðnæmdist. Hann áttaði sig ekki strax á hvað hafði gerst og leit á klukkuna. Hún var eina mínútu yfir sex. Hann drap á bílnum. Þarna hafði eitthvað bilað, hugsaði hann með sér um leið og hann togaði í handfangið til að opnað húddið. Svo leit hann út um rúðuna. Hann hafði þá klest bílnum á bíl kerlingarinnar á efri hæðinni. Hann blótaði í hljóði og hugsaði nákvæmlega ekkert. Hann bara sat í bílnum í nokkrar mínútur. Svo fór hann út og gekk að íbúðinni því hann ætlaði að hætta við ferðina og fara að sofa en áttaði sig á því að húslyklarnir voru inni.
Hann réði ekki við sig, öskraði og sparkaði út í loftið, svo hljóp hann í bílinn og reykspólaði af stað. Staðráðinn að því að láta klukkuna ekki stoppa sig. Í baksýnisspeglinum horfði hann á mann á náttslopp sem gargaði á eftir honum og steytti hnefana. Nú!? Svo kerlingin er búin að fá sér karl, sagði hann og brosti. Dagurinn orðinn samur.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

He he...að vísu náði ég að fylla hann í gærmorgun áður en bensínið hækkaði.
En annars er þetta nánast eins og tekið beint úr lífi mínu, eins og það mun gerast á eftir.

C ya

Nafnlaus sagði...

Gleymdi Fúsi myndavélinni, spólunum , eða greiðunni sinni? Hvað gerir hann við Breiðdalsvík, keyrir hann upp á heiðina eða...?
Spennan er rafmögnuð. Dugar sígaretturnar alla leið eða þarf hann að kaupa á leiðinni? Svarið við þessum og öðrum spurningum kemur örugglega aldrei fram í dagsljósið. Bara að minnast á þetta að gamni.

Hafið hann góðann.

Unknown sagði...

Shit. Kæmi mér ekki á óvart að hann gleymdi myndavélinni en hann er a.m.k. með heilar sex spólur bara upp á lukkuna.
Fyrir ca klukkutíma var hann á Jökulsárlóni þannig að heiðin er eftir. Hver veit.

Unknown sagði...

Var að tala við Fúsann. Hann er að leggja í hann frá Höfn. Nýbúinn að torga hamborgar og teyga sígarettu. Bara tveir tímar eftir og ég ætla að hlda áfram að laga til.

Unknown sagði...

Hann er kominn! Kom klukkan fimm.
Faðmlag, Guinness, fótbolti, bjór, Futurama, rauðvín...

Nafnlaus sagði...

Ef heiðin er ófær þá fer fúsi þrengslin...