þriðjudagur, 15. júlí 2008

ÖMURLEGT SAMTAL II

Um daginn setti öryggisvörður Securitas sumardekkin undir bílinn sinn. Hann var í fríviku. Bílskúrinn hjá Securitas var níttur í það og var sjálfur þjónustustjóri Securitas á Austurlandi á staðnum.
Í miðjum klíðum kom fólk til að hitta á þjónustustjórann. Vel búin hjón og svo eiginkona hans. Þegar þau voru farin kom öryggisvörðurinn að tali við hann.
-Var þetta tengdó?
-Nei. Þetta var mágkona mín og maður hennar, sagði hann og leit niður og þagði eitt andartak.
Öryggisvörðurinn fór hjá sér því aldursmunurinn fannst honum þó nokkur. -Þið eruð svo ungleg hjónin, sagði hann til að lífga upp á samræðurnar en þannig var hættunni búin, að tilraunin gæti mistekist og ollið miður góðum endalokum.
-Við erum að fara í kistulagningu tengdaföðurs míns, sagði hann og leit upp, mæddur á svip og dró augnbrúnirnar saman en röddin sú sama, rám en aðeins hægari.
Öryggisvörðurinn leit undan eitt augnablik, greip svo andan og beit í neðri vörina. Það gat verið. Alla hans tíð hefur hann verið þögull maður. Hann hafði sjálfur áhyggjur af því hve feyminn hann var en núna gerir hann sér grein fyrir því að Guð ætlar honum einfaldlega að þegja.
-Hann var orðinn gamall, hélt hann áfram og þeir horfðu í sömu átt, svona rétt svo þeir þyrftu ekki að upplifa tilfinningar hvors annars. Sorg þjónustustjórans og vandræði öryggisvarðarins. -93 ára gamall, búinn að upplifa margt, bætti hann við.
Öryggisvörðurinn hugsaði með sér að þessum gamla manni hlytu að hafa fylgt margar góðar sögurnar sem hefðu eflaust veitt honum vinsældir. Andlát hans hefði því eflaust verið börnum hans, barnabörnum og jafnvel barnabarnabörnum hans erfið.
Ég, ég samhryggist þér, sagði öryggisvörðurinn og hugsaði með sér hvort það væri til hæfi að segja þetta þar sem hann hafði ýft upp sárið. Hann hefði sennilega átt að byðjast afsökunar.
Já, takk, sagði hann eins og hann vonaðist til þess að þessu samtali færi að ljúka.
Þeir störðu báðir í sömu átt svona rétt eins og þeir sæju eitthvað sérstakt en það var ekkert til að sjá nema iðnaðarhúsnæði og bilaðir bílar.
Heyrðu, ég ætla að halda áfram með þetta, sagði öryggisvörðurinn og steig skrefið. Já gerðu það, svaraði þjónustustjórinn og gekk rakleiðis inn á skrifstofuna. Öryggisvörðurinn stóð eftir og gerði sig líklegan til að kveðja hann en ákvað að hlýða drottni og þegja.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hehe get rétt ímyndað mér mómentið :D

Unknown sagði...

já þetta var dálítið vandræðalegt... eins gott að þetta sé ekki daglegt brauð, þá væri maður orðinn algjör mannafæla.

Nafnlaus sagði...

Maður verður nú bara vandræðarlegur við það eina að lesa þetta :D

Unknown sagði...

Sem betur fer er maður löngu búinn að venjast því að þurfa að skammast sín, oft.